22.01.2023
Landeldi hf. og Ræktunarsamband Flóa og Skeiða ehf. hafa skrifað undir verksamning um borun á 30 sjóholum í Þorlákshöfn sem verða allt að 100 metrar á dýpt. Jafnframt er stefnt á borun á ferskvatnsholum og mæli- og vöktunarholum. Samningurinn tryggir Landeldi hraunsíaðan sjó fyrir allan fyrsta áfanga félagsins. Verktíminn er áætlaður 15 mánuðir og verður borinn Saga notaður til verksins. Verkið hefst á komandi vikum.
29.12.2022
Guðmundur og Stefán koma frá Leonhard Nilsen & Sönner í Noregi þar sem þeir hafa stýrt viðamiklum verkefnum á sviði jarðgangnagerðar síðastliðin ár. Þeir hefja báðir störf fyrir Landeldi hf. þann 1. janúar n.k.
14.12.2022
Landsvirkjun og Landeldi hf. hafa samið um sölu og kaup á allt að 20 MW raforku til nýrrar laxeldisstöðvar Landeldis í Þorlákshöfn. Viðræður hafa staðið yfir frá því 2021. Endurnýjanleg orka er lykill að sjálfbærri framleiðslu fyrirtækisins, sem jafnframt nýtir jarðsjó og ferskvatn við starfsemi sína.
13.08.2022
Stjórn Landeldis hf. hefur ráðið Eggert Þór Kristófersson í starf forstjóra félagsins. Hann hefur störf 17. ágúst næstkomandi.
Eggert er fæddur árið 1970. Á árunum 1995 til 2008 starfaði Eggert hjá Íslandsbanka og Glitni þ.m.t. sem framkvæmdastjóri eignastýringar Glitnis banka á Íslandi og í Finnlandi. Eggert tók við starfi framkvæmdastjóra fjármálasviðs N1 árið 2011 og tók við starfi forstjóra N1 í febrúar 2015, sem síðar varð Festi hf., ásamt að hafa verið stjórnarformaður N1, Krónunnar, ELKO, Festi Fasteigna, Bakkans Vöruhótels, Malik Supply A/S og Nordic Marine Oil í Danmörku. Hann er með Cand. oecon. gráðu á endurskoðunarsviði í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og er jafnframt löggiltur verðbréfamiðlari.
08.07.2022
Mikilvægur áfangi náðist fyrir sjálfbæra matvælaframleiðslu á Íslandi þegar Landsvirkjun og Landeldi hf. undirrituðu skilmálayfirlýsingu fyrir raforkusölu til nýrrar laxeldisstöðvar Landeldis í Þorlákshöfn. Laxeldisstöðin hefur verið á teikniborðinu um nokkurn tíma, en Landeldi er íslenskt fyrirtæki sem einbeitir sér að fulleldi lax á landi. Stefnt er að því að gera rafmagnssamning samkvæmt skilmálayfirlýsingunni fyrir lok árs.
28.04.2022
Benchmark Genetics Iceland í Vogum hefur síðan í desember 2020 séð Landeldi fyrir yfir tveim milljónum laxahrogna til áframeldis á landi. Í gær skrifuðu félögin undir þriggja ára áframhaldandi samstarfssamning sem kveður á um að Benchmark útvegi Landeldi öll þau hrogn sem fyrirtækið mun þurfa fram á mitt ár 2025.
09.03.2022
Landeldi hefur undirritað samning við HighComp um afhendingu á sjálfbærum kerjalausnum fyrir fyrsta áfanga að uppsetningu á laxeldisstöð Landeldis. Átta ker úr sterku og sveigjanlegu trefjagleri. Þau verða 20m að þvermáli og reist í svokölluðum M2 hluta stöðvarinnar. Þau munu taka við löxum úr M1 áfanganum, sem samanstendur af 4x15 metra seiðakerjunum frá Trefjum ehf.
20.12.2021
Landsvirkjun og Landeldi hafa undirritað viljayfirlýsingu um að kanna möguleika Landsvirkjunar á orkusölu til laxeldisstöðvar Landeldis í Þorlákshöfn.
14.10.2021
Stjórn Landeldis kynnir með stolti og ánægju að tekist hefur að fjármagna fyrsta áfanga Landeldisverkefnisins upp á 2,5 þúsund tonna framleiðslu. Heildarfjármögnun hlutabréfa á þessu ári mun þá samtals nema 15,3 milljónum evra, samhliða tveimur milljónum evra af fjármögnun með lánsfé.
27.09.2021
Okkur er ánægja að tilkynna að Landeldi er orðið styrktaraðili körfuboltaliðs Þórs í Þorlákshöfn. Ótrúlegur árangur liðsins á síðasta keppnistímabili byggir ekki síst á gríðarlegum stuðningi samfélagsins á staðnum. Okkur hjá Landeldi finnst spennandi að fá að vera hluti af því.